no image

Fylgja minningarsíðu

Viktor Smári Sæmundsson

Fylgja minningarsíðu

8. febrúar 1955 - 5. janúar 2022

Andlátstilkynning

Viktor Smári Sæmundsson forvörður, fæddist í Reykjavík 8. febrúar 1955. Hann lést á Landspítalanum 5. janúar 2022.

Útför

19. janúar 2022 - kl. 13:00

Útför hefur farið fram.

Aðstandendur

Eiginkona, börn og tengdasonur: Ingibjörg Hafstað, Solveig Viktorsdóttir, Ragnar Ingi Ingason, Halldór Sölvi Viktorsson, Sæmundur Sveinn Viktorsson.

Allt svo hljótt

Smári, öðlingurinn, fagurkerinn, erkivinur okkar. Svo penn, vanafastur, sígilt dannaður. Samverustundirnar voru sjaldnast í hljóði. Tónlist, oft með dansæfingum, umlykur minningar heima og heimanað. Ævintýrastundir á Ströndum eða við vitann við Þjófaklett í Borgarfirði með kampavín í fjörunni, kraftgöngur og útilegur Göngugrindanna vetur og sumar, máltíðir Imbu með fersku lofti í hverjum bita á útkjálkum, ströndum, fjallsbrúnum Hornstranda, eða í flóum og firnindum Arnarvatsnheiðar og í Lónsöræfum eða í Fjörðum . Þitt kaffi á brúsa. Á hve mörgum Hvítanesjum skyldum við hafa stillt okkur upp eins og fjögurra manna bönd? Þær verða nú tómlegri langferðir okkar þar sem espressókannan kemur okkur inn í daginn með gufuljóðum og lyktin af prímusrituðu brauði leikur um gönguskóna. Lágstemmdrar samverunnar verður saknað úr grillveislum með spilakvöldum, þar sem sjaldgæf amerísk einsöngslög setja stemmninguna, tónlistargetraunum mun linna og auðug umræða um íslenska og danska list dregst saman. Líka fækkar brotum úr ævisögunni frá símavinnu, skátagöngum, skólaárum og sagnaþáttum um Hauk Morteins í Kaupinhafn. Nú verður ekki lengur hægt að fletta upp í þér um bíladekk, prentarapappír, vinnslu ljósmynda eða liti ljósapera. Nú lærist ekki meir um flæking tónlistarmanna milli súpergrúppa gegnum blússöguna. Frá þér var hægt að fá allt um eiginleika listmálningar, allt um nýja og notaða bíla, lífræn lím og gullblöð, sögusagnir um gamla listmálara og ástarmál þeirra, listilega samsetningu áleggs, upphengireglur, flugur til veiða, útivistarfatnað og havanahatta. Að ég tali nú ekki um skeggvöxt og skeggkossa, góða vinylspilara, magnara, lampatæki, bassabotna og nálar. Þannig bjó í þér klassískt greinandi skynbragð á hluti ef gæði bar á góma, sem og virðing fyrir handbragði og vönduðum frágangi. Ekki þar fyrir að hlutir skiptu svo miklu máli heldur var aðferð þín við að segja frá svo ljós og gefandi og langt frá fésbókarstíl að enginn þurfti að fara á mis við smáatriði sem margfalda lífsnautnir hvers meðaljóns. Enginn náði þér í fótógenískum fríðleik, vinur, eins og ferðamyndir sanna, en verst er að frásagnir um um samhengi minninga, staða, sögur og listir fylgja ekki með. Mikið höfum við notið vináttu við þig og Ingibjörgu þína sem nú er okkar. Mikið þótti mér vænt um okkar samferð elsku Smári, elsku Imba.

no image
Góður drengur fallinn

Það var fyrir svona hálfri öld er ég var nýfluttur í Vogana og farinn að taka strætó daglega í menntaskólann niðrí bæ að maður fór að kynnast góðu fólki úr hverfinu sem var á sömu leið í sömu erindum. Saman inn í vagninn komu yfirleitt tveir perluvinir, sem áttu það sameiginlegt að vera bæði sérlega geðslegir og skemmtilegir drengir en eru núna báðir fallnir frá: Goggi og Smári, Þorgeir Rúnar Kjartansson og Viktor Smári Sæmundsson. Og gæfan bauð að maður fékk líka að verða vinur þessara manna. Eðliseinkenni Smára var eilíft glaðlyndi og jafnlyndi; alltaf var manni mætt með brosi á vör; það var aldrei neitt í hans fari sem kalla mætti dynti, hvað þá undirmál. Ég man þegar ég kom inn á æskuheimili hans og hitti foreldrana að faðir hans heilsaði mér eins og heiðursgesti, og var ástæðan sú að feður okkar Smára, Kári og Sæmi, höfðu keyrt saman olíubíl hjá Shell um miðja síðustu öld. Og vinátta okkar hélst æ síðan, meðal annars með árlegum hittingum heima hjá Stefáni Jóni og Guðrúnu.

Vertu sæll, Smári

            Þrátt fyrir hvaðeina, sem skilur okkur að, erum við öll á sömu vegferð. Framundan, í mismiklum fjarska frá hverjum og einum, bíður okkar hlýtt og mjúkt óminnismyrkrið - þangað sem við hverfum og þaðan sem við lögðum upp í þessa vegferð. Við hliðrum okkur hjá að spyrja hvers vegna við erum á þessari göngu - enda svo sem ekki til neins -  en ósveigjanlegur frum­kraftur og löngun til að lifa gefa okkur áræði og þolgæði til að halda áfram á leið okkar í meðlæti og mótlæti, njóta hins góða og fagra sem á vegi okkar verður, gleðjast með vinum og sækja kjark og þor og tilganginn með þessu jarðneska vafstri til náinna ástvina sem fylgja okkur hvert fótmál. Kveðjustundin er sár en opnar jafnframt augu okkar fyrir því, ef við höfðum ekki leitt hugann að því áður, hvað lífið er dýrmæt gjöf.

Vinakveðja

Sporbaugar okkar manna eru ekki eins og brautir himintunglanna, útreiknanlegir eftir náttúrulögmálum, heldur skarast krókaleiðir okkar og krákustígar á ýmsum tímum eftir ferlum sem verða ekki fyrir séðir. Þannig var það með leiðir okkar og Smára. En hitt getum við vottað: Viktor Smári Sæmundsson og Ingibjörg Hafstað áttu fallega samleið í lífinu og fyrir okkur voru þau voru ævinlega eitt: Imba og Smári. Nú er sá góði maður Smári fallinn frá og missir Ingibjargar og barna þeirra: Solveigar, Halldórs og Sæmundar, er mikill.