Fylgja minningarsíðu
Þórir Magni Áskelsson
Fylgja minningarsíðu
19. ágúst 1973 - 27. október 2024
Andlátstilkynning
Elsku Þórir Magni okkar lést í faðmi fjölskyldunnar á gjörgæsludeild Landspítalans þann 27 október s.l.
Útför
2. nóvember 2024 - kl. 16:00
Jarðaförin fer fram frá Hólmavíkurkirkju
Aðstandendur
Íris Anný, Viktoría Hrund, Berglind og aðrir ástvinir.
"Heyrðu vinur"
“Þórir Magni er kominn á spítala mjög veikur, svo veikur hann svarar ekki meðferðum og læknar gera síður ráð fyrir að hann eigi batavon.” Voru skilaboðin sem mér bárust um helgina. Ég fann hvernig hjartað og hugurinn urðu þyngri. Svo fóru minningarnar að koma til mín. Við á Hólmavík tveir í eltingaleik í garðinum hjá ömmu og afa. Þrjú ef Steina var ekki með vinkonum sínum eða ef Sigtryggur var með. Besti heimilisgarður á Íslandi fyrir börn að leika sér og hnoðast í. Ég að gista hjá þér og Dúu á Njálsgötunni í litla bakhúsinu. Þar sem plássið var lítið sem ekki neitt - en samt var allt bara dásamlegt. Lúða og feiti í matinn og kartöflur með. Ég, 11 ára gamall að koma einn með strætó ofan úr Breiðholti í heimsókn til Ellu og Önnu á Grettisgötuna að bíða eftir því að þú kæmir heim úr skólanum svo við gætum leikið okkur aðeins saman. Þið Klara að koma með Írisi og Viktoríu í myndatöku heim til mín. Og þú svo glaður með dásamlegu stelpuskottin ykkar. Þú að vitna í afa okkar og nafna “Hurðu vinur” með hljómfallinu hans - alltaf þegar við hittumst. Frá því við vorum smápjakkar þangað til í sumar. Ferðin okkar fjögurra mín, þín, Bjarna Hákonar og hennar Alexöndru á Ólafsvík árið 2006 og svo í miðnæturveiði í Hítarvatni. Kvöldið stillt og milt, aðeins farið að dimma, en kyrrlátt og dásamlegt. Sumarkvöld eins og þau verða best á Íslandi. Ég man ekki hvort við fengum fisk. Við allir vandræðalega meðvitaðir um að við værum að draga 11 ára barn í miðnæturveiði langt eftir eðlilegan háttatími. En ekki þó verra en svo að þessi minning okkar fjögurra varð til þess að við vildum endurskapa þessa stund í sumar, loksins þegar við vorum öll á landinu 18 árum síðar, og bættum þá henni Ylfu minni í hópinn. Þess vegna eigum við hin minningu um síðustu samskiptin okkar, stund þar sem við gátum verið saman heilan dag og bara notið félagsskaparins og heimsóknar í Miðdalsgröf. Á ferðinni og uppi á Tröllatunguheiði í veiði. Á hlýjum en aðeins vætusömum degi. Rifjað upp gömul asnastrik. Þá sá ég líka í fyrsta skipti í alvöru hversu þreyttur líkaminn þinn var orðinn. En í gegnum hugann rann líka það sem ég hef stundum hugsað um þegar ég hugsa um hversu gott ég hef haft það á lífsleiðinni. Hvernig lífið gaf þér forgjöf. Og hversu miklu verri þín forgjöf var en margra annars. Alinn upp af einstæðri móður í láglaunastarfa sem tókst á við fjárhagserfiðleika og ströggl. Á nútímaíslensku myndum við segja um barnæskuna þína að þú hefðir alist upp í fátækt. Ungur drengur, alinn upp, meira eða minna án föðurímyndar og þegar þú reyndir loks að byggja upp það samband hversu svikinn þú upplifðir þig eftir þau samskipti. Genin lögðu þér til sjúkdóm sem var þér að lokum um megn. Helvítis alkóhólismi! Hvernig þú fékkst það besta frá þínum nánustu, fullt af væntumþykju og kærleik frá Dúu, ömmu og afa, Ellu, Önnu og Dadda, Bjarna og Steinu og móðursystkynum þínum. Og auðvitað báðum konunum í lífi þínu og stelpunum þínum. En kærleikurinn var ekki nóg. Hann varð lífið þitt, en Það varð urðu hinar forgjafirnar þínar líka. Ekki stöðugleiki, þú þekktir hann ekki og gast ekki veitt hann með góðu móti. Og þó veikindin þín hafi sést mismikið eftir því við hvern þú áttir í samskiptum, þá greiddu þau líklegast gjaldið sem stóðu þér næst í gegnum tíðina. Þó stóra tollinn af þessum sjúkdómi greiddirðu sjálfur. En þrátt fyrir allt áttirðu alltaf hlý orð og faðmlag handa þeim sem vildu. Eftir því sem árin liðu. Fannst mér erfiðara að ná til þín. Bjóða þér í mat eða að finna eitthvað að gera saman. En síðustu ár þar sem ég horfði, úr meiri fjarlægð en áður, verja tíma með Berglindi, sá ég þig svona mikið brosandi og glaðan að ég var alveg sáttur við það. Mér sýndist, og ég held, þú hafir verið hamingjusamur. Það var mér nóg. Það hvarflaði aldrei að mér að ég myndi vera hjá þér þegar líkaminn sagði stopp. En ég er þakklátur fyrir að hafa getað það og hafa haft tækifæri til að segja þér hvað ég er þakklátur fyrir vináttuna þína og frændsemina í gegnum síðastliðin 51 ár, gefa þér eitt lokaknús. Ég ætla að vanda mig að muna frænda sem faðmaði mig alltaf innilega í hvert skipti sem við hittumst gaf mér koss á kinnina og nokkur orð af væntumþykju. Ég ætla líka að halda af alefli í þessar veiðiferðir okkar. Ég ætla samt mest að muna fallega litla ljóshærða, bláeygða frænda minn sem ekki var orðinn veikur, mátti ekkert aumt sjá. Hláturmilda strákinn sem var alltaf til í prakkarastrik. Og ég ætla að muna hann oft.