Solveig Thorlacius
Hún Solveig systir okkar var einstakt eintak. Þegar hún fæddist, töluvert fyrir tímann, var hún ósköp lítil og létt. En fljótt kom á daginn að hér var engin písl á ferð heldur svipsterkur einstaklingur sem sópaði að. Í útliti var hún sérstök; hávaxin, með hátt enni og þetta dásamlega fallega glóandi hvíta hár. Sem barn lærði hún á píanó en færði sig fljótt yfir á selló, sem fór henni svo vel og féll svo vel að hljómnum í röddinni hennar. Solla söng alla tíð mikið, bæði í góðra vina hópi og með ýmsum kórum.