Maja systir mín var töffari
Maja systir mín, var töffari. Hún var alin upp í sjómanna- og verkamannahverfi í Hafnarfirði og gleymdi aldrei uppruna sínum. Þekktur alþingismaður Sjálfstæðisflokksins spurði einhverju sinni hvað hún, læknisfrúin, væri alltaf að tala um láglaunafólk. Þetta var í aðdraganda kosninga og hann ætlaði að snúa hana niður. Honum tókst það auðvitað ekki því hún var ekki „læknisfrú“ þótt hún væri gift lækninum Jóni Aðalsteinssyni. Hún var stelpa úr sjávarplássi sem var í blóð borin uppreisnin gegn óréttlátu samfélagi. Alnafna hennar, föðuramma okkar, tók þátt í fyrsta verkfalli á Íslandi, en of sjaldan er nefnt að það var kvennaverkfall í Hafnarfirði á fyrsta áratug síðustu aldar. Amma María hefur eflaust brúkað kjaft því að hún fékk ekki starf í heimabæ sínum þegar verkfallinu lauk og gekk til vinnu inn á Kirkjusand í tvö ár. Mamma okkar, Dalla, og móðuramma okkar Jóhanna, elduðu svo hafragraut oní verkfallsmenn á kreppuárunum. Mamma saumaði sér meira að segja rauðan samfesting til að vinna í á saltfiskreitnum.