Minningar um Kömmu
Kömmu kynntist ég haustið 1992 þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem leikskólastjóri í Garðabæ. Hún heimsótti mig í leikskólann, sat hjá mér örugglega í þrjá til fjóra tíma og sagði mér sögu sína í löngu máli. Hún sagði mér frá ferð sinni til Íslands, fyrstu árin hér, stofnun Kömmuskóla, starfið í Bæjarbóli og stjórnun Kirkjubóls. Og hún gaf mér góð ráð. Eftir heimsóknina höfðu myndast tengsl sem stóðu órofin í 30 ár. Við hittumst reglulega í samfélagi leikskólastjóra í Garðabæ og nutum þess að koma saman og ræða um leikskólastarf og uppeldismál almennt. Hún hafði ákveðnar skoðanir á þeim og kom þeim skýrt á framfæri. Það vissu allir hvar Kamma stóð, hún var hrein og bein. Það kunni fólk að meta. Henni fannst til dæmis foreldrar stundum ekki verja nægum tíma með börnunum sínum og það er til þekkt saga af Kömmu að spyrja foreldra að því fyrir jólin hvort þeir ætli ekki að taka sér frí með börnunum sínum milli jóla og nýárs. Það voru fáir sem þorðu að neita því. Lífið mótaði Kömmu og gerði hana að þeirri manneskju sem hún var. Það var hennar styrkur, að hafa fjölbreytta reynslu og góða hæfni til að finna til með öðrum. Hún hafði einnig marga hæfileika, var skapandi og frjó og hafði gott lag á að njóta lífsins og finna því tilgang. Ég á enn trefilinn sem hún gaf mér úr þæfðri ull, hann minnir mig á Kömmu. Og ég á öskupokann líka sem hún gaf öllum sem unnu á bæjarskrifstofu Garðabæjar eitt árið, hún vildi halda í þann alíslenska sið að hengja öskupoka á fólk. Kamma var íslensk en líka dönsk. Það er því vel við hæfi að minnast hennar með vísu Benny Andersen um lífið og lukkuna, gleðina og að njóta dagsins.