no image

Fylgja minningarsíðu

Jón William Magnússon

Fylgja minningarsíðu

16. desember 1940 - 7. nóvember 2014

Útför

Útför hefur farið fram.

Minningarorð Steinþórs Jónssonar, sonar Jón William

Glaðvær, skemmtilegur og traustur eru orðin sem ég fæ svo oft að heyra þegar talað er um elskulegan föður minn sem nú hefur kvatt þetta líf alltof semma. Það er auðvelt að taka undir þessi fallegu orð því þau lýsa pabba svo vel. Pabbi var einstakur maður, hugmyndaríkur og gefandi persóna þar sem dugnaður og væntumþykja voru honum í blóð borin.Ég er stoltur að vera sonur pabba og mömmu og geri mér fulla grein fyrir þeim forréttindum sem við systkinin nutum í uppeldinu og síðar í lífshlaupi okkar og þakklátur fyrir allt það sem hann var börnunum okkar. Betri afa var ekki hægt að hugsa sér. Án efa standa ævintýraferðirnar upp úr í huga dætra minna en ég sem faðir sé einnig mikilvæg áhrif sem hann hafi á þær varðandi lífið sjálft; heiðarleikann, dugnaðinn og jákvæðnina.Við áttum yndislegan tíma saman við Meðalfellsvatn síðastliðin 20 ár þar sem uppbygging var okkar sameiginlega áhugamál frá fyrsta degi en báðir höfðum við gaman af að koma hvor öðrum á óvart með nýjum framkvæmdum og viðhaldi. Ávextir framkvæmdanna voru í huga pabba bros og gleði þeirra sem nutu. Ferðir okkar feðga til Ólafsfjarðar og síðar erlendis, við tveir saman í viðskiptaferðum eða með fjölskyldunni, gáfu okkur tækifæri til samveru. Eru ferðir okkar Hildar með honum og mömmu, til Kúbu, Kanada í Klettafjöllin og blómagarðinn á Viktoríueyju sérstaklega minnisstæðar. Þá áttum við bræður yndislega ferð nú í vor til Whistler í Kanada þar sem pabbi skíðaði niður lengstu brekkuna eftir 60 ára hvíld frá skíðaiðkun. Þessar draumaferðir munu aldrei líða okkur úr minni.Pabbi trúði á einkaframtakið af heilum hug og vann alla tíð langan vinnudag enda mjög ósérhlífinn. Hann leit á vinnu sem tækifæri til að njóta lífsins og skapa lífsgæði fyrir fjölskylduna. Við pabbi höfum unnið saman hlið við hlið allt frá þeim degi er hann treysti mér fyrir smíði ofna á tólfta aldursári og framkvæmdastjórn Ofnasmiðju Suðurnesja aðeins 19 ára gömlum. Þetta traust fyllti mig stolti og vilja til að gera mitt allra besta. Okkur pabba varð aldrei sundurorða, því ef við vorum ekki sammála um eitthvað þá bakkaði hann, og hlýtur það að teljast sérstakt eftir rúmlega 30 ára dagleg samskipti með ofnasmiðjuna og síðar Hótel Keflavík.Það var virkilega erfitt að kveðja elskulegan föður minn og vin eftir harða baráttu síðustu vikurnar þar sem við fjölskyldan vorum hjá honum. Það var gott og gefandi að segja pabba hve stoltur ég væri af honum og elskaði hann mikið. Þessar einstöku samverustundir voru mér dýrmætar og munu fylgja mér alla tíð. Á kveðjustund kallaði pabbi svo fjölskylduna til sín með bros á vör, kvaddi okkur hvert fyrir sig, með þvílíkri reisn, þakklæti og væntumþykju sem fáir hefðu leikið eftir.Elsku pabbi minn, ég mun aldrei gleyma þér og því sem þú varst mér. Vonandi tekst mér að tileinka mér þó ekki væri nema brot af því sem þú hefur kennt okkur með lífshlaupi þínu. Við munum öll að hafa gaman saman eins og þú baðst okkur um.Guð gefi þér góða nótt elsku pabbi minn.