no image

Fylgja minningarsíðu

Ingileif Thorlacius

Fylgja minningarsíðu

5. ágúst 1961 - 22. mars 2010

Útför

Útför hefur farið fram.

„Ef einhver getur lifað af kjarnorkustríð er það Ingileif,“ sagði ágætur kennari við MH á balli nýstúdenta vorið 1981. Ingileif var að ljúka menntaskóla og ég man að ég var hjartanlega sammála manninum. Hún systir mín var klettur – svo yfirveguð og skynsöm, góð, jákvæð og einstaklega nægjusöm. Ingileif var öðlingur og fagurkeri, greind og skemmtileg. Hún var frábær myndlistarmaður, svo sjálfstæð, frumleg, djúphugul, smekkvís og næm. Hún var góður námsmaður og vann öll störf sín af vandvirkni og áhuga. Ef hún hefði notið góðrar heilsu er ég ekki í vafa um að hún ætti nú að baki farsælan feril sem myndlistarmaður og langt og gott líf fyrir höndum. En það verður ekki á allt kosið. Fyrir 13 árum fékk Ingileif heilablóðfall og greindist þá með æxli í framheila. Það hafði lúrt undir ennisblaðinu um óskilgreindan tíma og var farið að skemma fyrir henni löngu áður en nokkur vissi um tilvist þess. Með því fyrsta sem æxlið eyðilagði var myndlistarferillinn. Hún hélt samt ótrauð áfram lífinu og tókst af miklum dugnaði á við krefjandi störf og nám. Hún flutti út á land með Ásdísi sína og í heilt ár bjó hún alein á ættaróðalinu á Blönduósi þótt veikindin væru þá farin að há henni mjög mikið. Ingileif var einstök systir. Hún gætti okkar hinna af þolinmæði og elskusemi og studdi okkur skilyrðislaust, sama hvað við tókum okkur fyrir hendur. Ég er næst henni í röðinni og við tvær höfum verið meira og minna samferða gegnum lífið. Við deildum herbergi í foreldrahúsum, áttum flesta hluti saman og gengum í sömu fötunum. Við vorum saman í sveitinni, gengum í sömu skóla, vorum saman í kórnum og í Stúdentaleikhúsinu, leigðum saman, unnum á sömu vinnustöðum og vorum um skeið báðar í Hollandi. Alltaf var hún mér svo endalaust góð og aldrei rak hún mig frá sér þótt ég væri tveimur árum yngri, ekki einu sinni á unglingsárunum. Síðast vorum við saman í kennaranámi. Það var skemmtilegur vetur. Ekkert varð af kjarnorkustríðinu og vissulega varð Ingileif ekki langlíf. En hún lifði samt heilu ósköpin af, svo mikið mótlæti og svo mikla erfiðleika að það hálfa væri nóg. Allt til síðasta andvarps var hún samt sterk og jákvæð. Hún kvartaði ekki og aldrei heyrði ég hana hallmæla æxlinu eða illum örlögum. Það var reyndar ekki á dagskrá hjá henni að deyja heldur ætlaði hún að ná heilsu og fara heim til Ásdísar. Hún fór síðast út á meðal fólks í febrúar þegar opnuð var sýning á vatnslitamyndum á Kjarvalsstöðum þar sem hún á þrjár myndir. Það var ógleymanlegur dagur og hún naut þess í botn að eiga gleðistund innan um kunningja og vini.