no image

Fylgja minningarsíðu

Grétar Sigurbjörnsson

Fylgja minningarsíðu

9. mars 1959 - 2. janúar 2025

Andlátstilkynning

Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, sonur, afi og bróðir, Grétar Sigurbjörnsson, Heiðarbraut 2, Sandgerði, lést á Landspítalanum Fossvogi fimmtudaginn 2. janúar.

Útför

Útför hefur farið fram.

Aðstandendur

Sesselja Svavarsdóttir, Inga Birna Aðalbjargardóttir, Gunnar Þór Jóhannesson, Svavar Grétarsson, Helena Ásta Hreiðarsdóttir, Sigurbjörn Grétarsson, Magnea Ósk Waltersdóttir, Halldór Jón Grétarsson, Ása Lilja Rögnvaldsdóttir, Inga Guðlaug Helgadóttir, barnabörn og systkini hins látna.

Þakkir

Aðstandendur þakka auðsýnda samúð og hlýhug.

Norðurbæjarvillingarnir.

Elsku vinur, þær hafa alltaf verið margar minningarnar sem flogið hafa í gegnum hugann þegar nafn þitt bar á góma í samræðum og allar eru þær góðar. Nú hefur þú kvatt okkur vinina í bili og farið yfir í sumarlandið og við hin sem eftir lifum lærum að sætta okkur við það þ.e. við vitum að við fáum að hitta þig aftur. Ég veit hreinlega ekki hvar skal byrja í minningunum þ.e. við sköpuðum ávallt ný ævintýri á hverjum degi æsku okkar, enda bjuggum við jú á móti hvor öðrum, þú á Fróni og ég á Brekkustíg 1. Helst eru það prakkarastrikin okkar sem koma upp í hugann og ég held að það sé allt í lagi að rifja nokkur þeirra upp þó eflaust væru sum þeirra best gleymd og eða frásagnir af þeim að vera bannaðar innan 16. Við félagarnir vorum af sumum uppnefndir Norðurbæjarvillingarnir þó svo að það ætti við engin rök að styðjast. Í mínum huga vorum við allir ljúflingar inn að inn að beini. Við vorum kannski uppátækjasamir og smá grallarar en það var okkar leið til að stytta okkur stundir, enda voru engar tölvur í þá daga til að afvegaliða okkur og eða gera okkur félagsfælna og eyða deginum í að pósta á samfélagsmiðla hvað við átum í morgunmat. Ég efa það ekki að ef við værum að alast upp í dag, værum við allir félagarnir á tvö eða þreföldum ADHD skammti, slík var orkan í okkur sem við þurftum einhvern veginn að leysa úr læðingi. Foreldrum okkar þótti eflaust gott hvað við sofnuðum fljótt í lok hvers dags enda tók það á að vera á fleygiferð allan daginn. Eflaust kveið þeim einnig að fá hringingu í lok dags frá einhverjum sem hafði orðið fyrir prakkarastrikum okkar. Ég minnist bardaganna sem við strákarnir í Norðurbænum háðum oft gagnvart Suðurbæingum á orrustuhólnum milli Fróns og Símstöðvarinnar. Þetta voru alvöru orrustur þar sem menn börðust með heimasmíðuðum vopnum og það var algengt að Arinbjörn heimilislæknir þurfti að sauma og eða plástra menn eftir þessar orrustur. Ég man eftir þriggja hæða kofanum sem við smíðuðum á hólnum næst Fróni og klæddum hann allan með tjörupappa. Eina leiðin að komast inn í hann var að toga sig upp með reipi og smokra sér síðan í gegnum þaklúgu. Þar sátum við eitt sinn félagarnir á fyrstu hæð og skipulögðum atlögu að Suðurbæingum þegar einhver okkar spurði: "Strákar, fynnið þið brunalykt?" Suðurbæingar höfðu fengið nasaþef af áætlun okkar, mætt og kveikt í kofanum að utanverðu. Við félagarnir þustum upp á þak og stukkum niður og máttum þakka fyrir að hafa sloppið lifandi frá þessum hildarleik! Ég man líka þegar við vorum að fikta við afgangsrakettur sem ég hafði komist yfir en ég bjó að því að pabbi átti verzlunina Nonni & Bubbi sem seldi allt milli himins og jarðar að okkur fannst. Ég man söguna þannig að við höfðum sagað rakettuhausinn af skiparakettu og vorum að basla við að kveikja á þráðnum sem slökknaði sífellt. Þar sem rakettan lá á innkeyrslunni við bílskúrinn heima, tendraðir þú eldspýtu, barst að og skipti engum togum að rakettan tók beina stefnu inn í bílskúr þar sem ég var fyrir. Einhverra hluta vegna, snéri raketta við og stefndi beint á þig þar sem þú stóðst forviða að fylgjast með. Þú náðir því miður ekki að beygja þig og raketta náði að svíða línu mitt á toppnum á hausnum á þér og endaði síðan út á götu þar sem hún sprakk og út kom fallhlíf með rauðglóandi loga. Sem betur fer slasaðist enginn við þetta og við reyndum hvað við gátum að fela brunann með húfunni þinni. Enn í dag veit ég ekki hvernig þér tókst til með að halda þessu leyndu fyrir foreldrum þínum. Einnig kemur upp í hugann kassabílasmíði okkar vinanna og þar var vandað til verka eins og okkur einum var lagið. Okkur fannst ómögulegt að hafa ekki yfirbyggingu á kassabílnum og tókum því til hendinni við að redda því. Ég vissi að það væri timbur að finna í bílskúrnum hans pabba og því hófumst við handa við að smíða yfirbygginguna og notuðum byggingaplast í framrúðuna. Við vorum virkilega stoltir af smíðinni í lok dags enda búnir að smíða flottasta kassabílinn í bænum. Slíkt hið sama var ekki hægt að segja um hann föður minn þegar hann kom heim og sá bílinn. Við höfðum sagað niður öll Tekk-gereftin sem hann hafði ætlað sér að nota í nýbyggingu sem hann var að smíða í Keflavík. Ég man líka hvað okkur þótti spennandi að ögra hafinu og oftar en ekki var það gert aftan við Miðnes á stað sem við kölluðum Navæ eða Nawaii. Af hverju við kölluðum staðinn þetta veit ég ekki en hann var öllum kunnur undir þessu nafni á okkar uppvaxtarárum. Þarna mönuðum við hvorn annan þegar háflóð var að hlaupa eftir endilangri frystigeymslu Miðnes milli þess sem öldurnar brotnuðu. Oftar en ekki neyddust menn til að hoppa upp stigann á slortankinum svo okkur skolaði ekki út. Það er hreinlega með ólíkindum að engum okkar skyldi skola út en það eitt var víst að þegar við skiluðum okkur loksins heim, var ekki þurr þráður á okkur. Við ólumst upp á besta stað í heiminum að okkur fannst, Höfnin og bátarnir, fjaran, Skóla- og Kattatjörnin, heiðin ofan við Sandgerði, fiskihjallarnir, gömlu netageymslurnar, holóttu göturnar, Efra Sandgerði, bíóið í Samkomuhúsinu að ógleymdum járnahaug Miðnes sem var að finna aftan við símstöðina og við sóttum gjarnan í þegar við vildum fela okkur fyrir umheiminum og prufa listisemdir lífsins þ.e. púa sígarettur inn í lokuðum bræðslutönkum sem hafði verið fargað frá bræðslunni en þangað mættir þú í eitt skiptið sem oftar með fullt karton af sígarettum sem örugglega hafði dottið af himni ofan í hendurnar á þér. Allavega fékk Denni heitinn lögga ekki nasaþef af þeirri uppákomu í það skiptið en við vissum alltaf af honum á hliðarlínunni. Það voru forréttindi að alast upp í Sandgerði og eiga þig að vini og hafðu þakkir fyrir það elsku vinur. Ég geymi fleiri sögur af uppátækjum okkar í hjarta mínu og eða læt það öðrum að segja frá þeim. Takk fyrir samfylgdina elsku vinur og sé þig seinna í sumarlandinu. Þinn æskuvinur, Steini Beggu, Norðurbæjarvillingur!

Vinarkveðja

Minn­ing þín er mér ei gleymd;

no image