no image

Fylgja minningarsíðu

Fríður Ásdís Kristjánsdóttir

Fylgja minningarsíðu

25. febrúar 1931 - 2. maí 2022

Andlátstilkynning

Okkar ástkæra Ásdís Kristjánsdóttir lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands aðfararnótt 2. maí 2022.

Útför

Útför hefur farið fram.

Aðstandendur

Börn og aðrir afleggjarar

Um ömmu

Þegar ég loka augunum og hugsa til ömmu þá finn ég næstum lykt af nýsteiktum kleinum og heyri jafnvel glaðvært söngl. Við erum í eldhúsinu í Laugahlíð og amma er að baka, elda eða taka slátur. Hún er annað hvort ein eða vinkonur hennar með henni og það er gaman. Það er mikið talað og hlegið. Það var alltaf verið að stússa og við borðið sit ég yfirleitt, tilbúin með mjólkurglasið og bíð eftir bita af einhverju góðu sem ég veit að verður gaukað að mér. Þegar ég hugsa um ömmu þá sé ég fyrir mér hlýjan faðm, glaðvært bros og koss á kinn. Amma var búin að koma flestum börnum sínum á legg þegar ég birtist í lífi hennar en aldrei fann ég fyrir því að ég væri ekki akkúrat þar sem ég ætti að vera, hvorki frá henni né afa. Þolinmæðin sem hún sýndi litlu brussunni, sem ég var, er í minningunni óendanleg. Allt sem hún fór, fór ég líka. Ég elti hana eins og skugginn eða eins og vinkona hennar úr Varmahlíð sagði, fyrst kom Dísa, svo kom Hrefna á eftir. Minnistætt er mér augnablik þar sem við bíðum lengi í sláturhúsinu tvær. Búið var að slátra skjátunum okkar og það var búið að lofa mér hornunum, og það urðu að sjálfsögðu að vera hornin af okkar kindum. Og svo var beðið. Og svo var beðið heldur lengur. Aldrei orðaði amma það einu sinni að þessi bið væri að trufla hana og þegar hornin loksins komu var þeim öllum safnað saman í stóran poka, mun stærri var pokinn en stelpukjáninn sem ætlaði að halda á honum, en enn sagði amma ekki orð. Þessu hafði verði lofað og við þetta skyldi staðið. Ekki það, hún aðstoðaði mig ekki mikið við að rogast með pokann upp í bíl, það var eitthvað sem ég bar ábyrgð á enda hafði ég valið öll þessi horn. Hún var með uppeldið á hreinu hún amma. Herti mann á réttum stöðum og huggaði þar sem þurfti.