Kveðja frá Fríðu
Fyrst kynntist ég menningarblaðamanninum Ásgeiri H. Ingólfssyni. Ég man ekki hver kynnti okkur en hann læddi sér einhvern veginn inn í líf mitt á sinn fölskvalausa, lágstemmda og ótrúlega launfyndna hátt, allt í einu vorum við nánir vinir. Við vorum að baksa við að búa til fjölmiðil. Okkur dreymdi um betri blaðamennsku. Betri kjör fyrir blaðamenn. Og við gátum setið löngum stundum og velt fyrir okkur mismunandi vinklum á öllu því efni sem mætti við öðru og meiru en bara að frá því væri sagt. Ásgeir langaði að rýna og gagnrýna, hann hafði áhuga á því sem var utanveltu, jaðarsett, skakka vinklinum á meinstrími. Og þegar ég sneri mér að öðru hélt hann harkinu áfram. Síðustu viku hefur heilmikið verið skrifað um menningarblaðamanninn Ásgeir - og allt svo satt og rétt. Hann var afkastamikill og áreiðanlegur, áhugasamur og fróður.