no image

Fylgja minningarsíðu

Ásdís Jónsdóttir

Fylgja minningarsíðu

16. apríl 1943 - 28. október 2024

Andlátstilkynning

Elsku mamma, tengdamamma, amma og langamma okkar, Ásdís Jónsdóttir frá Steinadal, lést á hjartadeild Landspítalans, þann 28.október sl. eftir snörp veikindi.

Útför

8. nóvember 2024 - kl. 14:00

Útför verður gerð frá Hólmavíkurkirkju .

Sálmaskrá
Aðstandendur

Börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn.

Skemmtileg vinkona.

Hugsunin um hvað við skiljum eftir okkur þegar við kveðjum og höfum vistaskipti, hefur verið áleitin eftir fráfall vinkonu minnar Ásdísar frá Steinadal þann 28. október síðastliðinn.

Kveðjuorð

Elsku Ásdís. Við minnumst vináttu þinnar, lífsgleði, hispursleysi og hjálpsemi. Það var notalegt að koma við í Strandakúnst og spjalla og við hittum þig líklega á öllum viðburðum sem haldnir voru í sveitinni síðastliðið ár. Þá héldum okkur oftast nálægt þér enda varðst þú strax okkar nánasti vinur í þorpinu. Þú fylgdist vel með öllu, vildir fylgjast með hvað yrði gert í Kópnesinu og tengdir okkur við steinahleðslumanninn frá Dröngum. Við ræddum um bækur og gróður, hannyrðir og gamaldags matarhefðir. Við munum sakna þín. Sendum samúðarkveðjur til fjölskyldunnar, einnig til Hólmvíkinga og nærsveitunga.

Takk fyrir allt!

Það er svo sárt að horfa á eft­ir fólki sem hef­ur í lang­an tíma verið stór og dýr­mæt­ur hluti af lífi okk­ar. Fólki sem naut þess í botn að vera virk­ir þátt­tak­end­ur í líf­inu með kær­leika, ást og vænt­umþykju að leiðarljósi og lýsti upp um­hverfi sitt með já­kvæðu lífsviðhorfi og for­dóma­leysi. Þannig mann­eskja var hún Ásdís tengda­mamma mín.

no image
Einhvers staðar einhvern tímann aftur

Hólmavíkurlognið og Haglél áttu stefnumót í Bjarnarfirði 10. nóvember 2011. Við ætluðum sko ekki að missa af því. ,,Stingum af“ beið okkar og við stungum af og keyrðum yfir í fjörðinn fagra. Þú við stýrið. Mugison á sviðinu. Fólksfegurð í salnum. Og allt var eins og það átti að vera. Á leiðnni heim ræddum við stjörnubjartan himininn og stjörnuna Mugison og þetta magnaða allt og ekkert sem er þar á milli. Allt á milli himins og jarðar. Tíminn virtist standa í stað. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum keyrðir þú á 30 - 40 km hraða. Við mjökuðumst löturhægt eftir veginum. Ég var róleg til að byrja með. En svo fór ég að undrast, alveg þangað til ég fór að ókyrrast. Þegar ókyrrðin jókst innra með mér og ég gat ekki hamið forvitni mína lengur snéri ég mér að þér og sagði: ,,Ásdís, ég verð bara að fá að spyrja þig, afhverju í veröldinni keyrir þú svona hægt?“ Þú leist ekki af veginum þegar þú svaraðir bæði rólega og hiklaust: ,,Afþví að ég vil ekki að þessi ferð taki enda“.  Ég elskaði hvernig þú gast stöðugt komið mér á óvart. Vakið með mér mína uppáhaldstilfinningu sem er sjálf undrunin. Þú varst stærri en ímyndurnaraflið mitt. Þú leiddir mig upp á splunkunýja og spennandi sjónarhóla. Hreyfðir við hugmyndum mínum og hugmyndakerfum. Hugmyndakerfum sem við sem samfélag erum oft pikkföst inn í, jafnvel án þess að gera okkur grein fyrir því. Þú varst sterkari en glerþökin sem þú braust, hvert á fætur öðru í gegnum lífið.