4. maí 2022
Hvíld og sálarnæring er mikilvæg
Gunnar Rúnar Matthíasson hefur á löngum ferli snert líf ótal margra sem hafa legið á spítala á Íslandi eða verið í hlutverki aðstandenda. Hann tók á móti Minningum á skrifstofu sinni í Fossvogi og ræddi um margvíslegar hliðar starfs síns sem forstöðumaður sálgæslu sjúkrahúspresta og sjúkrahúsdjákna á Landspítala.
Að vænta missis
Ferill Gunnars Rúnars hófst í Chicago þar sem hann fékk starf í framhaldi af því að hafa lokið sérnámi í sálgæslu frá University of Iowa Hospitals and Clinics. Árið 1996 fluttist hann heim til Íslands og hefur starfað sem sjúkrahúsprestur á spítalanum óslitið síðan, fyrst þeim hluta sem þá hét Sjúkrahús Reykjavíkur en rann svo saman við Landspítalann svo úr varð Landspítali – Háskólasjúkrahús. Við byrjuðum á að spyrja Gunnar Rúnar út í upplifun sína af því að styðja við aðstandendur fólks sem er dauðvona.
„Ég sé það á hverjum degi hvernig yfirvofandi missir, t.d. makamissir setur allt á skjön og það hellist yfir fólk angist og vanlíðan. Það sem mér finnst einna dýrmætast í slíkum kringumstæðum er að hjálpa því að horfa ekki eingöngu á missinn sjálfan.“
„Ég reyni að minna aðstandendur á að við erum að búa til minningar allt fram á síðustu stund, bæði erfiðar og fallegar og að við eigum gildan tíma og reynslu alveg þar til einstaklingur hefur kvatt. Þá tekur við umbreytingarferli þar sem í stað þess að slíta okkur alveg frá hinum látna við umbreytum tengslunum innra með okkur og búum viðkomandi viðvarandi stað í hjarta okkar.“
Fólk þarf að finna sína leið
Það verður vart viðkvæmara en þegar fólk sér fram á að missa sitt nákomnasta. Hvernig getur fagfólk, aðstandendur, vinir og jafnvel samfélagið í heild best stutt við það?
„Á þessum fyrsta tíma er stundum svolítið ofmetið að maður þurfi hina og þessa hjálpina. Maður þarf tíma fyrir sjálfan sig til að leyfa hlutum að setjast með sér á þeim hraða sem er manni eðlilegt.“
„Það má ekki taka vanlíðanina af aðstandendum. Fólk þarf að fá tækifæri til að syrgja. Það þarf að fá að finna til og tíma til að ná andanum. Þegar það er búið að fá tækifæri til þess þá getur reynst vel að fá að fara aðeins dýpra í samtali.“
Hvernig á maður þá að takast á við áföllin þegar maður mætir þeim?
„Maður nýtir þau tæki sem maður hefur átt með sér, hjálpleg eða ekki hjálpleg, því þau eru það eina sem maður getur beitt þegar á reynir. Svo getur vel verið að seinna aukist manni innsýn inn í hvað er í raun hjálplegt og hvað ekki og þá getur maður lagað til í verkfærakistunni.“
Valdefling aðstandenda
Myndirðu segja að hluti af því sem þú ert að gera með fólki í erfiðum aðstæðum sé í raun að valdefla það til að finna sjálft sína leið?
„Algjörlega. Ef mér tekst vel til þá er það þannig.“
„Markmiðið hjá mér er alltaf – og ætti að vera hjá öllum þerapistum og styðjendum – að gera sjálfan sig óþarfan.“
„En hluti af valdeflingunni er að fólk virði sig þess að það er auðveldara að bera hluti með öðrum og það að geta ávarpað með öðrum í trúnaði hvað á manni hvílir gerir mann færari til þess að spyrja spurninga sem geta opnað og greitt götu manns gegnum það sem maður er að reyna.“
Hvað hindrar mig?
Í íslenskri menningu er ekki alltaf mikil þolinmæði fyrir sorg og stundum veit fólk ekki hvernig það á að vera við manneskju sem er í sorg sem getur jafnvel orðið til þess að tengsl rofna og manneskjan einangrast. Ef við setjum okkur svolítið í spor þeirra sem standa fyrir utan þennan innsta hring aðstandenda þess sem deyr eða er deyjandi, er eitthvað sem þér kemur til hugar varðandi hvernig er best að styðja við fólk sem er að missa eða syrgja náinn ástvin?
„Ég vil snúa þessari spurningu við, því við erum alltaf að hugsa „hvernig á ég að koma fram við þig?“ í staðinn fyrir að hugsa „hvað hindrar mig í að vera til staðar fyrir þig?“ Það sem hindrar mann oft í að hafa samband er að tilhugsunin um hvernig við ímyndum okkur upplifun þess sem er að syrgja. Það verður svo gjarnan að hindrandi hugrenningum um hvernig manni sjálfum myndi líða í sömu stöðu.“
„Maður fer ofhugsa og búa til allskonar sviðsmyndir í huganum sem eru heimfærðar upp á aðra en byggja á manns eigin ótta gagnvart eigin umhverfi.“
„Eða ef maður hefur sjálfur misst þá kannski leita þær tilfinningar aftur á mann. Maður þarf að hugsa út í það hvað er að banka uppá hjá manni og þá getur líka vel verið að maður þurfi að leita sér stuðnings til að ávarpa það. Það snýst ekki um að læra hvernig maður á að vera við þann sem missir heldur að finna tækifærið til að sjá hvað það er sem hindrar mann í að vera til staðar.“
Ertu aðeins til í að hlusta?
En hvað gerir maður svo? Hvað tekur við þegar maður er búinn að ávarpa hindrunina innra með sér?
„Ef eitthvað hindrar okkur í að þora að vera til staðar þá lendum við í afar leiðum en algengum vanda þar sem skömmin býr til fyrirvara og verður að hindrun.“
„Ef ég hef ekki samband fyrstu vikuna, hvað á ég þá að segja eftir mánuð? Og ef ég hef ekki samband eftir mánuð, hvað á ég þá að segja eftir ár? Allt í einu getur vinskapurinn verið orðinn í besta falli kunningsskapur. “
„En það er aldrei of seint að hringja og segja: „Fyrirgefðu, mig langar til að segja þér svolítið. Ertu aðeins til í að hlusta? Ég verð bara að segja að ég skammast mín upp fyrir haus að hafa ekki haft samband.“ Heilbrigður, vel þroskaður einstaklingur getur tjáð sig svona og sagt í einlægni að hann vildi hafa reynst betri vinur. Við getum ekki grætt eða byggt upp vinskap að nýju með því að sópa hlutunum undir teppið.“
Gaman að hugsa út fyrir rammann
Á síðasta ári tók Gunnar við stöðu forstöðumanns sálgæslu sjúkrahúspresta og sjúkrahúsdjákna á Landspítala þar sem hann fer fyrir samhentum hópi fageinstaklinga í sálgæslu. Hann sér sig fyrst og fremst sem almennan sjúkrahúsprest en þó fylgja starfinu ný og spennandi verkefni.
„Það má kannski segja að um fjórðungur starfsins hjá mér fari í formlegt utanumhald. Síðan er ákveðinn vettvangur innan stjórnkerfisins, sem maður verður að rækja og rækta, þar sem maður fær tækifæri til að vera hluti af umræðunni um fyrirkomulag þjónustu innan geðþjónustunnar og spítalans alls. Það er bara óskaplega gaman að fá að hugsa út fyrir rammann og taka virkan þátt í þeim mikla rekstri og mig langar að segja flotta rekstri sem Landspítali – Háskólasjúkrahús er.“
„Við heyrum aðallega af fjárþröng og mönnunarvanda Landspítala í fjölmiðlum, sem verður það sem tekur yfir umræðuna, meðan hér er alveg ótrúlega mikið af öflugu starfsfólki sem er að láta sig varða bæði sjúklinga og aðstandendur þeirra.“
COVID reyndi á
Sú heildræna nálgun sem jafnan er beitt í þjónustunni á landspítala þurfti að líða fyrir ástandið á COVID tímanum, sem reyndist sjúklingum og aðstandendum erfitt. Um leið reyndi það mjög á starfsfólk, en Gunnari Rúnari er mjög umhugað um það og þann hluta starfs síns sem snýr að því að huga að velferð starfsfólks og vellíðan.
„Það var erfið staða sem starfsfólk fann sig í þegar það þurfti að virða takmarkanir og segja „nei því miður, það má bara koma einn.“ Það tók mikinn toll að vera ekki að sinna aðstandendum eins og við vorum að sinna þeim áður og geta ekki sinnt heildarumgjörðinni í kringum sjúklinga. Það er mjög fátítt og varla til að maður hitti einstakling sem er engum tengdur.“
„Einstaklingurinn er til og hefur merkingu í þeim tengslum sem hann á þannig að við sem erum að sinna fólki verðum að geta tekið tillit til aðstandenda.“
Hvíld og sálarnæring er mikilvæg
Hver myndirðu segja að mesta áskorunin dag frá degi í þínu starfi væri?
„Ég hefði svarað þessu allt öðruvísi fyrir fimmtán árum og kannski ekki alveg heiðarlega. Þá hefði ég sennilega sagt að vissulega tæki margt á í starfinu en í móti kæmi að það væri svo gefandi að fá að vera með fólki þar sem gríman er algjörlega felld. Það er svo heil og græðandi nærvera. Þetta er vissulega satt, en ef ég á að vera alveg heiðarlegur þá er mesta áskorunin að gæta eigin öryggismarka hvað varðar hvíld og persónunæringu. Allt sem maður sinnir tekur af sálarþrekinu og áskorunin er að gæta þess að næra sálina og virða sig nærandi hvíldar þegar maður hefur gengið svolítið nærri sér.“
„Öll nærvera undir ógn og óöryggi þar sem maður lánar stundum svolítið af sínum eigin burðum og jafnvel dómgreind tekur dálítið mikið þrek.“
„Það er eðlilegt að bregðast við álagi með því að herða svolítið á sér og verða svona nett manískur og á því skeiði er erfitt að segja nei. Ef ég passa mig ekki á þessu fer ég að ganga á sjálfan mig og þá er hætta á að ég fari ekki nógu vakandi inn í aðstæður, gæti mín ekki nógu vel og sé ekki nógu læs á umhverfi mitt.“
Litlu hlutirnir skipta oft mestu máli
Myndirðu þá segja að í þínu starfi sé það þannig að maður missir dómgreind ef maður gætir sín ekki að fá hvíld og sálarnæringu?
„Ef ég gæti mín ekki þá er ég ekki eins vakandi og ekki eins næmur og þá er hættara við að ná ekki að mæta fólki þar sem það þarf á mér að halda. Þá endar maður bara með því að valda sjálfum sér og öðrum vonbrigðum og vonbrigðin eru svolítið þung í því sem ekki er mælanlegt eða hægt að sýna fram á blaði.“
„Ég á vinkonu sem kennir predikunarfræði í Bandaríkjunum. Hún er mjög eftirsótt og mikið bókuð víða um Bandaríkin. Hún leggur mikið í flutning og gefur mikið af sér. Vegna þessa þarf hún líka gjarnan að vera ein með sjálfri sér í allt að klukkutíma eða tvo eftir að hún er búin að predika til þess eins að jafna sig.“
„Mér er þetta svolítið mikilvæg áminning sem ég hugsa til þegar ég er búin að standa erfiða vakt. Þá þarf maður að viðurkenna að það hafi tekið orku. Ef maður er sáttur við framlag sitt og hefur kannski tekist að leggja einhverjum lið þá er það ágætt. En maður hefur oft fyrst um sinn aðeins sitt eigið mat á því vegna þess að maður fær kannski ekki þá svörun fyrr en mörgum vikum seinna. Þegar maður þá heyrir að eitthvað sem maður gerði eða sagði hafi reynst vel eða skipt máli og er dýrmætt að taka við því og virða sér það. Oft kemur það einmitt á óvart hvað það var sem hjálpaði. Jafnvel bara eitthvað lítið eins og kaffibolli og svolítil nærvera á réttu augnabliki.“