15. desember 2021

Undirbúningur kistulagningar

no image

Kistulagning er stutt og falleg kveðjuathöfn fyrir nánustu aðstandendur. Í aðdraganda hennar er meðal annars valin kista og fatnaður sem hin látna manneskja á að klæðast.

Staður

Kistulagningar eiga sér yfirleitt stað í kirkjum, kapellum eða bænahúsum. Sumir kjósa þó óvígt húsnæði og þá koma ýmsir staðir til greina að því gefnu að aðgengi sé gott. Á síðustu árum hefur færst í vöxt að hafa kistulagninguna og útförina á sama stað, og sama dag.

Stund

Kistulagning fer oft fram sama dag og útför en þar sem þessi stund getur reynst nánustu aðstandendum þungbær velja margir að láta einhverja daga líða frá kistulagningu til útfarar. Þetta á gjarnan við þegar um ótímabært andlát er að ræða eða börn og ungt fólk.

Algengast er að kistulagningar fari fram á virkum dögum fyrir klukkan þrjú en þó eru dæmi þess úti á landi að þær eigi sér stað á laugardegi og þá oft með útför í kjölfarið sama dag.

no image

Nærverustund

Í aðdraganda kistulagningar bjóða útfararþjónustur aðstandendum upp á nærverustund með manneskjunni sem er látin. Þær fara fram í kapellu eða öðru slíku rými og geta farið fram án þess að búið sé að velja föt eða kistu.

Nærverustundir eru hugsaðar fyrir nána aðstandendur sem gátu ekki verið á dánarbeðinu eða hafa þörf fyrir að eiga stund í kyrrð og næði með látnum ástvini. Slík stund getur reynst fólki góður undirbúningur fyrir kistulagninguna.

Fatnaður og snyrting

Sumir aðstandendur kjósa að klæða sjálfir og snyrta manneskjuna sem er látin undir umsjón útfararstjóra. Aðrir fela það starfsfólki hjúkrunarheimilis eða útfararþjónustunni. Útfararstofur bjóða aðstandendum yfirleitt að velja milli einfaldra hvítra líkklæða og annars fatnaðar sem er til eða keyptur sérstaklega.

Aðstandendur geta sett fram óskir um snyrtingu og hár, t.d. hvort eigi að raka eða snyrta skegg, hvernig eigi að greiða hár o.s.frv. Förðunin er oftast látlaus en einnig er tekið á móti sérstökum óskum og fylgja þá oft snyrtivörur með eins og varalitir, ilmvatn eða naglalakk.

Val á kistu

Flestar útfararstofur bjóða upp á nokkrar gerðir af kistum. Svart- eða hvítmálaðar kistur voru lengi vel algengastar en mjög hefur aukist að fólk velji kistur með náttúrulegra útlit og stendur valið þá á milli ólíkra viðartegunda.

no image
no image

Allar kistur þurfa að vera framleiddar samkvæmt reglugerð og gilda ólíkar reglur um grafarkistur og brennslukistur. Á sumum útfararstofum fylgir sæng, koddi og blæja með kistunum, allt í hvítu, sem annars er selt sér. Bólstrið inni í kistunum er langoftast hvítt.  

Athöfnin

Margir velja að flutt sé tónlist í kistulagningunni en hún bæði sefar og gefur fólki rými til að syrgja. Í kristnum kistulagningum eru stundum auk forspils og eftirleiks sungnir sálmar, lesinn er ritningarlestur og farið með bænir. Í veraldlegum athöfnum er meiri áhersla lögð á manneskjuna sem er látin. Oft er tónlist leikin og stundum farið með ljóð eða aðra veraldlega texta.

Algengast er að í upphafi kistulagningar sé blæja yfir andliti manneskjunnar sem er látin. Sumir kjósa að hafa hana á allan tímann en þegar gengið er að kistunni til að kveðja er fólki frjálst að lyfta henni og setja hana svo aftur yfir. Stundum er blæjan tekin af undir lok athafnar áður en gengið er að kistunni til að kveðja ástvin. Allt eftir óskum aðstandenda.

Eftir kistulagninguna er kistunni lokað af útfararstjóra og stundum taka aðstandendur þátt í því. Kistan er ekki opnuð aftur eftir það nema að sérstakri beiðni aðstandenda.

 

no image

Fossvogskirkja

Á Íslandi fara langflestar kistulagningar fram í Fossvogi, enda er stærsta líkhús landsins staðsett þar og eina bálstofan. Fossvogskirkja er ekki sóknarkirkja. Aðstaðan í kirkjunni, kapellunni, bænhúsinu og bálstofunni er því opin öllum með íslenska kennitölu án endurgjalds. Í húsakynnum Fossvogskirkju fara einnig fram veraldlegar athafnir og athafnir annarra trúarbragða en kristni, en þá eru trúarlegir munir eins og biblía og lausir krossar fjarlægðir.

Tengdar greinar