24. desember 2021

Erfidrykkja

no image

Í huga margra er erfidrykkjan mikilvægur hluti af kveðjuathöfninni því þar kemur fólk saman til að minnast og votta hvert öðru samúð.

Hvenær

Á Íslandi hefur sá siður lengi tíðkast að fólk komi saman til erfidrykkju að lokinni útför. Sú hefð skapaðist fyrr á tímum þegar aðstandendur og vinir þurftu gjarnan að ferðast um langan veg til að vera við útförina. Oft er boðið til erfidrykkju á þann hátt að prestur eða athafnastjóri tilkynnir að aðstandendur bjóði öllum viðstöddum að njóta veitinga á tilteknum stað að athöfn lokinni. Einnig er algengt að boðið komi fram í sálmaskrá eða annarri prentaðri dagskrá athafnar.

Fyrir eða eftir greftrun?

Víða um land er sú hefð ríkjandi að allir sem eru við athöfnina séu einnig viðstaddir jarðsetningu í kirkjugarði. Í stærri bæjum hefur verið til siðs að aðeins nánustu ættingjar séu viðstaddir greftrun en aðrir halda beint í erfidrykkjuna. Það hefur oft í för með sér nokkra bið eftir þeim sem fóru í garðinn og getur því lengt tímann sem fólk þarf að taka sér leyfi frá vinnu.

Á síðustu árum hefur meira borið á því að erfidrykkja hefjist strax eftir athöfn. Greftrun fer þá fram að erfidrykkju lokinni. Sú tilhögun líkist því sem tíðkast þegar um bálför er að ræða og jarðsetning fer ekki fram samdægurs.

Staðarval

Margt þarf að taka til athugunar þegar valinn er staður fyrir erfidrykkju. Hvort sem safnast er saman á heimili aðstandenda, í safnaðarheimili eða veislusal þarf að vera gott aðgengi að staðnum og hann þarf að rúma vel þann fjölda sem áætlað er að verði við athöfnina.

Veitingar

Víða um land er algengt að líknarfélög sjái um kaffimeðlæti í erfidrykkjum en í stærri bæjum er oftast leitað til veisluþjónustu. Einnig þekkist að vinir og ættingjar leggi saman á borð veisluföng, sérstaklega ef um fámennari erfidrykkjur er að ræða.

no image
no image

Klassískar veitingar í erfidrykkjum eru kleinur, flatkökur og heitir brauðréttir. Hafi hin látna manneskja átt sér uppáhald, til dæmis ákveðna köku, er ánægjulegt að geta boðið upp á hana. Flestir drekka kaffi og sódavatn og hægt er að einfalda veitingaval með því að sleppa öðrum gosdrykkjum. Við þessar aðstæður er oft gott að ætla sér ekki um of. Á síðari árum hefur orðið algengara að bjóða upp á ýmsa hollustu, til dæmis ávexti og grænmeti. Einnig hefur færst í aukana að haldið sé standandi boð með fingramat og áfengu eða óáfengu freyðivíni.

Erfidrykkjur á tímum COVID

Á tímum COVID geta sóttvarnaráðstafanir komið í veg fyrir að fólk geti safnast saman í erfidrykkju, sérstaklega ef fjölskyldur og vinahópar eru stórir. En með útsjónarsemi má finna leiðir til að sem flestir geti átt þessa stund saman. Sumir hafa brugðið á það ráð að halda erfidrykkjuna síðar, til dæmis á dánardeginum að ári liðnu, sem getur reynst engu síður mikilvæg stund og þakklát þeim sem syrgja.

Tengdar greinar