16. desember 2021

Að velja hvílustað

no image

Hluti af því að kveðja látinn ástvin er að velja stað til hinstu hvílu. Sumir eiga þegar frátekinn stað í duftreit, grafreit eða kirkjugarði. Aðrir hafa látið í ljós hinstu óskir. Annars kemur það í hlut aðstandenda að velja ástvini sínum hvílustað.

Lögvarinn réttur

Allt fólk á Íslandi á lögvarinn rétt á legstað. Hann getur verið í þeirri sókn sem viðkomandi lést eða átti síðast lögheimili eða annars staðar samkvæmt óskum aðstandenda. Útfararstofur sjá um að útvega legstaði, sem geta verið í kirkjugarði, grafreit eða duftreit. Allar grafir eru friðaðar í 75 ár og er hægt að sækja um framlengingu friðunarinnar.

Fráteknir legstaðir

Þegar legstaður er frátekinn þarf sá sem er skráður fyrir honum að gefa skriflegt leyfi um að þar megi grafa (sé viðkomandi ekki látinn). Ef frátekinn legstaður er ekki fyrir hendi er nýjum úthlutað og þá er hægt að taka frá einn til tvo legstaði við hlið hins nýja fyrir sömu fjölskyldu en réttur til grafstæðanna gildir í 50 ár.

Jarðsetning eða dreifing ösku

Þegar um bálför er að ræða er aðstandendum skylt að jarðsetja öskuna í kirkjugarði, grafreit eða duftreit en þeim stendur einnig til boða að dreifa öskunni en til þess þarf sérstakt leyfi sem Sýslumaðurinn á Norðurlandi veitir. Á Íslandi má enn sem komið er eingöngu dreifa ösku yfir sjó eða öræfi.

Jarðsetning ösku ofan í legstaði

Talsvert er um að aðstandendur jarðsetji ösku ofan í legstað þar sem annar ástvinur hvílir fyrir en til þess þarf skriflegt leyfi frá rétthafa, sem getur t.d. verið eftirlifandi maki, elsta barn hjóna sem fallin eru frá eða annar fulltrúi fjölskyldunnar. Þá þarf að huga vel að merkingum á leiðinu og skráningu í legstaðaskrá en þar eru öll leiði auðkennd með tölumerki.

Margir fara þá leið að hafa legstein eða púltstein sem grafin eru í nöfn þeirra sem hvíla í leiðinu. Þannig verða stundum til eins konar fjölskyldureitir þar sem þeir sem eftir lifa geta vitjað sinna nánustu.

Minnismerki og minningarreitir

Í flestum kirkjugörðum og grafreitum eru minnismerki eða minningarreitir þar sem aðstandendur geta minnst látins ástvinar sem er grafinn annars staðar eða hefur ekki fundist. 

Tengdar greinar