7. desember 2021

Að hafa samband við útfararþjónustu

no image

Algengast er að fagaðili á vettvangi hafi samband við útfararþjónustu skömmu eftir andlát, þegar aðstandendur hafa valið hvert þeir vilja leita.

Upplýsingar

Þegar haft er samband við útfararstofu þurfa eftirfarandi upplýsingar að liggja fyrir: Fullt nafn hinnar látnu manneskju, lögheimili, kennitala, dánarstaður, dánardagur og staða. Einnig þarf að gefa upp nafn, lögheimili, kennitölu og símanúmer nánasta aðstandanda.

Stuðningur við aðstandendur

Vert er að hafa í huga að stundum er sorg nánustu aðstandenda slík að frumkvæði þeirra getur verið skert. Þannig getur hlutverk útfararþjónustu verið mjög mikilvægt í gegnum allt ferlið frá andláti til greftrunar.

Um trúnaðarsamband er að ræða en samkvæmt lögum eru útfararstjórar bundnir þagnarskyldu um allt sem fram kemur í samskiptum þeirra við aðstandendur.

Grunnþættir þjónustunnar

Þjónusta þeirra sem hafa leyfi til að hafa umsjón með útförum og kistulagningum á Íslandi er að einhverju leyti mismunandi eftir stofum en þó eru nokkrir grunnþættir sem allar útfararstofur annast, eins og flutningur frá dánarstað, aðstoð við að velja og útvega legstað, snyrting og annar undirbúningur fyrir kistulagningu og umsjón með útför og greftrun.

Önnur þjónusta

Margar útfararstofur bjóða upp á víðtæka þjónustu. Allt frá undirbúningi kistulagningar til aðstoðar við gerð minningargreina. Þá eru dæmi þess að útfararstofur bjóði lögfræðiþjónustu vegna erfðamála og leiðbeini varðandi umsóknir um útfararstyrki, svo eitthvað sé nefnt. 

no image

Val á útfararþjónustu

Margir þættir geta ráðið vali nánustu aðstandenda á útfararþjónustu. Oft eru það meðmæli frá öðrum aðstandendum sem hafa haft góða reynslu af tiltekinni útfararstofu og stundum myndast hefð í fjölskyldum að leita til sama aðilans. Stundum fær fólk tillögur frá fulltrúa trúar- eða lífsskoðunarfélags og þar fram eftir götunum. Útfararkostnaður skiptir að sjálfsögðu líka máli og því er eðlilegt og sjálfsagt að bera saman tilboð frá tveimur eða fleiri útfararstofum.

Ólíkar þarfir

Mikilvægast er að nánustu aðstandendur nái góðu sambandi við þann sem annast þeirra mál hjá útfararstofunni og upplifi að þeir séu í öruggum höndum á þessum viðkvæma tíma. Eins er mikilvægt að aðstandendur geti alltaf ákveðið hvað þeir vilja sjá um sjálfir og hvað þeir vilja fá aðstoð við, því sumum finnst gott að hafa verkefni og hlutverk meðan aðrir hafa þörf fyrir meiri þjónustu og handleiðslu. 

no image

Þjónusta við aðstandendur

Á þjónustusíðum okkar má finna upplýsingar um fjölda útfararstofa um allt land sem og aðra þjónustuaðila sem koma að andláti og útförum með einum eða öðrum hætti. 

Tengdar greinar